Flutt

Staðlað

https://www.facebook.com/LeitinAdLettaraLifi

Auglýsingar

Markmið júlímánaðar

Staðlað

Markmið júlímánaðar er ósköp einfallt, hreyfing utandyra upp á hvern einasta dag, skokk þrisvar sinnum í viku og göngutúrar hina dagana. Svo er að mæta í ræktina þegar ég er í bænum.

„Uss, þú getur þetta nú aldrei!“

Staðlað

Meira hvað maður er alltaf til í að draga úr sjálfum sér! Var að koma frá því að hlaupa, eða skokka öllu heldur. Var í stöðugri baráttu við sjálfa mig, „uss, þú getur þetta nú ekki“ „uss, þú átt eftir að gefast upp“„uss, þú dettur niður dauð, NÚNA!“„uss, ég er svo þreytt“„uss, nei nú GET ég bara alls ekki meir“ og ég veit ekki hvað og hvað … endalaus barátta. Ég hafði það nú samt alveg og rúmlega það, var að skokka mitt hraðasta skokk þetta árið og fór næstum 5 km. Bara ansi góð kerlan þegar upp var staðið.

Mig langar sem sagt oft til að hætta á miðri leið en ég læt það ekki eftir mér, enda engin ástæða til, ég get þetta alveg. Skokkið mitt er algjörlega á mínum forsendum, ég hleyp t.d. ekki hraðar en ég treysti mér til. Gott dæmi um það er þegar ég var einn daginn voða ánægð að skokka þá skyndilega LABBAÐI, jebs segi það og skrifa LABBAÐI maður fram úr mér. Fyrst varð ég voða skömmustuleg og móðguð og ég veit ekki hvað. Þarna var ég voða spræk (að því er ég taldi) að hlaupa eins og ég ætti lífið að leysa en svo bara skundar einn fram úr mér án þess að blása úr nös, þvílíkt og annað eins! Ég hefði þá getað valið að hætta við þetta allt saman, enda til hvers að vera að rembast þetta og láta svo bara einhvern rölta fram úr sér en svo mundi ég að ég væri að gera þetta á mínum forsendum einu saman. Labbhraðinn minn er hægari en skokkhraðinn minn þannig að ég er að skokka hratt á mínum forsendum. Einfalt mál og ég brosi bara þegar mér er hugsað til göngumannsins sem labbaði fram úr skokkaranum.

Við erum svo gjörn á að segja við okkur sjálf „ég get ekki þetta og ég get ekki hitt“ en svo þegar á reynir getum við flest það sem við ætlum okkur. Ég verð oft vör við að fólk segir „mig langar að hlaupa en ég get það ekki“ en það er svo vel hægt að byrja að hlaupa sama þótt maður hafi aldrei hlaupið, sama þótt maður telji sig vera orðinn of gamlan, feitan eða hvað annað sem manni dettur í hug að sannfæra sjálfan sig um að sé hindrun á vegi manns. Það er alltaf hægt að byrja, bara að muna að gera þetta á sínum eigin forsendum!

Ég er núna að taka þetta hlaupaprógram í 3ja sinn, fyrsta skiptið gafst ég upp af því að ég varð svo slæm í hnjánum og vegna þess að ég var að rembast við að hlaupa of hratt, annað skiptið kláraði ég en var bæði að díla við vesen í hnjám og hásin. Núna á ég bara eftir að hlaupa þrisvar sinnum til þess að klára prógrammið og ég hef ekki lent í neinu veseni með kroppinn. Ég passa mig að teygja vel á hásinarsvæðinu og svo hef ég borið krem sem heitir deep relief á hnén áður en ég fer að hlaupa og hef fyrir vikið verið alveg laus við vesen. Og síðast en ekki síst, ég er að gera þetta á mínum forsendum einum saman.

Ef þú gengur með drauminn um að hlaupa, gerðu drauminn að veruleika, það er hægt, bara að muna að gera það á þínum eigin forsendum!

 

 

 

Lífi blásið í blogg

Staðlað

Það er orðið ansi langt síðan ég bloggaði hér síðast, svei mér þá!

Þýðir samt ekki að heilsumál hafi setið á hakanum hjá mér, fjarri því. Var allt síðasta ár að sýslast í að finna orsök á slæmum síðuverk sem plagaði mig, gekk á milli sérfræðinga án þess að þeir fyndu nokkuð athugavert við konuna, hún var bara svo heilbrigð og frísk og flott en verkurinn var samur við sig. Allir sögðu þeir í endann „þetta er eitthvað stoðkerfisvandamál hjá þér“ en svo ekki söguna meir, engar hugmyndir um hvað ég gæti gert í því, þvoðu bara hendur sínar af því að þeir þyrftu nokkuð meira að sjá mig.

Ég var um tíma í lausu lofti með hvað ég ætti þá að gera, sætta mig við það að lifa með þessum verki eða reyna eitthvað meira en ég vissi bara ekki hvert ég ætti að fara. Það var svo góð kona sem benti mér á að fara til Bergs kirópraktors og þá fóru sko hlutirnir að gerast!

Hann var með það á hreinu að hann gæti lagað konuna, það þyrfti bara góðan tíma í það enda væri þetta vandamál sem hann fann búið að grassera í áratugi (líklega allt frá því ég lenti í slysi 12 ára gömul). Það er skemmst frá því að segja að ég er öll að koma til, verkjalyf heyra sögunni til, verkurinn hefur minnkað heilan helling og ég er sprækari.

Samhliða þessu stússi hef ég verið að taka mig á hreyfingalega séð. Ég byrjaði í Heilsuborg í janúarlok og mæti þar þrisvar sinnum í viku og sprikla frá mér allt vit. Svo er ég líka farin að skokka eftir C25K prógramminu, er komin í 8 viku og er farin að geta skokkað í 28 mínútur samfleytt. Sem sagt er ég að hreyfa mig sex sinnum í viku og elska það.

Matarmál ganga upp og ofan, ég er að gera fullt af flottum hlutum í þeirri deildinni, hef ekki borðað súkkulaði í rúmlega ár, drekk ekki koffeindrykki (nema einstaka gosglas), borða staðgóðan morgunmat, reyni að passa upp á millibitana, drekka vatn o.s.frv. Vantar þó herslumunin upp á að láta þetta ganga upp þannig að ég léttist eitthvað að ráði, en það kemur.

Sem sagt, fullt af góðum hlutum að gerast, hægt og bítandi.

Svo gaman

Staðlað

Ég tók í gær fram helling af fötum sem ég á frá því ég léttist síðast og svo var mátað og mátað og mátað 🙂

Hrikalega gaman því ég er farin að komast í mikið af fötum sem voru orðin of lítil á mig.

Peysuna sem ég er í á þessari mynd get ég farið að nota en það er enn svolítið í að ég geti farið að nota jakkann.

Ég á svo mikið af fallegum, fallegum fötum frá vetrinum 2005-2006 sem bíða eftir því að vera notuð á ný, gaman, gaman.

Get varla beðið eftir því að komast aftur í brúna leðurjakkann minn, sá tími mun koma og mikið verður nú gaman þegar það gerist.

Áfram veginn

Staðlað

Ég held ótrauð áfram, ekkert annað í boði. Síðasta vika hefur reyndar verið skrítin, þannig að matarræðið hefur verið aðeins utan við það sem prógrammið býður upp á, en nú er ég aftur komin inn á rétta braut. Þrátt fyrir nokkra óreglu í mat þá fór hálft kg og ég alsæl með það.
Ég er farin að finna töluverðan mun á fötum og þarf að fara að endurskipuleggja fataskápinn, leggja of stórum fötum og taka fram föt sem hafa beðið eftir því að vera notuð … ekki leiðinlegt verk.
Takmark 2 er ekkert svo ýkja langt í burtu.

Súpan hennar Hildar

Staðlað

Deili hér með ykkur uppskrift að súpu sem hún Hildur mágkona mín á heiðurinn af, rosalega góð súpa finnst mér, bæði heit og ekki síður köld í nesti. Ég fæ eina 5-6 skammta út úr þessari uppskrift, þannig að oft er það sunnudagsverk hjá mér að búa þessa súpu til 🙂 100% DDV væn, ég vigta um 400g af henni fyrir mig í einn skammt. Hér kemur uppskriftin.

 • 1 msk ólífuolía
 • 2 laukar skornir í strimla
 • 3 stk hvítlauksrif pressuð
 • 1 tsk oreganó (þurrkað)
 • 1 tsk basilika (þurrkað)
 • 1/2 tsk timian (þurrkað)
 • 4 litlar gulrætur
 • 1 stk rauð paprika
 • 2 kúfullar msk tómatpúrra (frá Sollu)
 • 425 gr tómatar (í gleri frá Sollu)
 • 1 l vatn
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 2 tómatar smátt skornir

Olía, laukur, hvítlaukur og smá vatn látið meyrna. Grænmeti skorið smátt og bætt út í ásamt kryddi. Rest sett útí og soðið í um 20 mínútur.